Vísur eftir Pál S. Pálsson og tilurð þeirra

Samkvæmt Sigrúnu systur Páls S., samdi Páll þessa vísu þegar hann var aðeins 12 ára í kýlapest í Sauðanesi um 1928:


Á stelpunum eru orðin grædd

ógeðslegu sárin.

En Dóba er enn svo móð og mædd

að mögnuð streyma tárin.

  (Dóba er Þórunn Pálsdóttir, systir Páls).


Sigurður Ólason, hrl. var fæddur og uppalinn á Snæfellsnesi. Sigurður og P.S.P.  áttu oft í glettingum, ekki hvað síst vegna þess að þeir fluttu dómsmál vegna landsréttinda hvor á móti öðrum um langt skeið. Sigurður í móðurætt og Páll í föðurætt voru þremenningar að skyldleika.


Um það leyti er Watergatehneykslið var enn í fersku minn, varð þessi vísa til frá P.S.P. um Sigurð, sem ávallt þótti kvenhollur:


Hann var alinn upp í sveit

efnilegur þótti.

Í veika kynsins Watergate,

viðfangsefnin sótti.


Þegar Eyþór Tómasson forstjóri Súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu h/f á Akureyri varð sjötugur 1976, kvað P.S.P. :


Eyþór binda engin bönd

auðinn Lindu þáði.

Sótti í vind með seglin þönd

sjötugstindi náði.


Sauðárkrókskaupstaður séður úr lofti síðari hluta vetrar 1965. P.S.P.   kvað:


Blessað veðrið var svo kyrrt,

að varla bifðist hár.

Alhvít jörðin angri firrt

svo undurbjört og klár.

Veslings Máni viðbragð tók

og velti sér um geim,

er leit hann sjálfan Sauðárkrók

í silfurramma þeim.



Í tilefni af síendurtekinni tilkynningu frá mönnum á heiðursdögum þeirra:


Hann nuddaði í vinnu frá níu til fimm.

Hann nuddaði fleira, þá kvöld voru dimm.

Alltaf var heima svo indæll að sjá

unz hann varð sextugur, hvað skeði þá?

Útvarpið gellur hið alkunna lag

,,Ekki verður hann heima í dag“.


Hinn 4. mars 1973 af tilefni nýuppkveðins Hæstaréttardóms:

Nemum lögmenn nýja fræði

nótt er varla liðin.

Rétturinn brennimerkti bæði

bakarann og smiðinn.


Á fleira þurfti líka að líta

lausnin rétta fannst að vonum.

Héraðsdóminn varð að víta

þótt vissi enginn nafn á honum.


Liggur stundum lausnin besta

leynd í iðrum faldra glæða.

Þannig reis af rústum fresta

rammgert vígi nýrra fræða.


Í tilefni af norðurreið Guðmundar Péturssonar hrl. og P.S.P.   sumarið 1969:


Aldrei kenndur er við Kron

er þó kenndur lon og don.

Týnist hestar, trú og von,

treystu á Guðmund Pétursson.


Rak af heiðum hrossin villtu,

hressilega málin vann.

Guðmundir með geði stilltu

góðum hesti ríða kann.


Munurinn á Guðmundunum:

Allir þekkja Guðmund góða

göngumannaforingjann.

En Vatnsdælinga styggir stóða

stjörnuóður ríða vann.


Sumarið 1980


Kveðjum vetur – kjósum Pétur

Keppnis – metið setur Pétur

Áfram fetar öruggt Pétur

Enginn getur betur en Pétur


Munið 29.júní.

Stuðningsmenn

Péturs J. Thorsteinssonar


Gert að Hofi í Vatnsdal 12/7 1975.


Eftir dóminn í Hæstarétti um Holtamannaafrétt, sem ríkið náði ekki að vinna, en Sigurður Ólason flutti á móti P.S.P. 


Þjórsártungum tapa vann

tröllin sungu meðan.

Ríkispungaráðsmennskan

reyndist þung að neðan.


Yndi víkur eðlið sanna

yfir fýkur runnana

þegar ríkis rjómakanna

rauða svíkur munnana.


Hinn 14. nóv. 1982 var efnahagsútlit lands vors uggvænlegt að venju og viðsjár úfnar með stjórnmálaflokkum.


P.S.P. kvað:


Þó að reyni ,,stétt með stétt“

að steypa öllu á hausinn,

fallið gengur fellt og slétt

fátæktar á dausinn.


Hinn 12. júlí 1981 kvað P.S.P. um Birgi Þorvaldsson og hestinn hans Nelsson, sem þá var á fallandi fæti:


Nú er farinn Nelson hinn,

náðug var hans fyrri öldin.

En furtarskarið fóstri minn,

fær sér bara drátt á kvöldin.


Minnisvísur skráðar eftir minni Signýjar Pálsdóttur:


Páll notaði minnisvísur í uppeldi 8 barna.  Þau óku oft með honum norður í Húnavatnssýslu á heimaslóðir hans og áttu að muna örnefni á leiðinni. Þegar illa gekk að muna fjöllin í Borgarfirði, samdi hann þessa vísu og kenndi þeim:


Lít ég ennþá fjöllin forn.

Fagurt brosir hjalli.

Skarðsheiði og Skessuhorn.

Skammt frá Hafnarfjalli.


Næstu romsu áttu þau að fara með þegar komið var norður af Holtavörðuheiði til að muna helstu sveitir þar til komið var í Ásana, þar sem hann var fæddur.  Þetta er frekar þula en vísa en svona var hún og sögð með ákveðnum takti:


Hrútafjörður, Hrútafjarðarháls.

Miðfjörður, Miðfjarðarháls.

Víðidalur, Vatnsdalur.

Þing og Ásar.


Svo átti þessi að kenna  hvaða ár renna í Blöndu:


Þrettán kvíslar í Þegjanda.

Þegjandi í Beljanda.

Beljandi í Blöndu þá

og Blanda rennur út í sjá.


PSP þýddi:


Sofnaðu ljúfur, sofnaðu rótt.

Blíð ertu börnum, blessaða nótt.

Daglúin augu draumlöndin sjá

Er sætþýður svefninn sígur á brá.


Ort um náttúruna:­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­


Esjan hvílir eins og ljón á bakka.

Vindur fer um veiðihár.

Vænn er makkinn silfurgrár.


Bindindismál


Nikotínistar:

Tóbaksháðir teljast þeir

sem tillitslausir keðjureykja

og loftið eitra meir og neir.

Margir sér af þessu hreykja.


Alkohólistar:

Áfengisháðir eru þeir

sem alltaf hlakka til að drekka

og fullir heimta meir og meir.

Mannorð sitt af þessu flekka.


1947 eftir Pál S. Pálsson ort undir dulnefninu asparagus

Samið fyrir húsmæðrakennara í Háskóla Íslands við lagið ,,Dansið þið meyjar“.


Einu sinni er veisla var,

vildi það til, að stúlkurnar

kveiktu illa á kertunum,

komst þá eldur að borðdúknum.


Hér eru engin látalæti,

lyftast faldar á kjólunum.

Heila nót ég hoppað gæti í

Húsmæðrakennaraskólanum.


Helga var ekki svifasein,

sentist hún eins og fugl af grein,

í dúkin svo tók og togaði,

til þess hann ekki logaði .


Hér eru engin látalæti, o.s.frv.


Það var sem allir misstu mátt,

margt af gestunum stundi hátt.

Ljómandi glaður Leifi þá

loftinu dældi bálið á.


Hér eru engin látalæti, o.s.frv.


Eldurinn þegar vaxa vann,

varð ekki ráðið neitt við hann,

leifi blés enn af meiri móð,

mörgum fannst Helga orðin rjóð.

Hér eru engin látalæti, o.s.frv.


Tóta mín litla, tindilfætt,

taldi sig geta úr þessu bætt,

bikarinn tæmdi báið í

brátt, svo enginn gat varnað því.


Hér eru engin látalæti, o.s.frv.


Eldarnir brenna furðu fljótt,

fæstir endast í hálfa nótt.

Við skulum tendra brennheitt bál,

bikarinn tæma og segja ,,Skál!“

Hér eru engin látalæti, o.s.frv.


PSP um Egil þungbrýnda hæstaréttardómara er Akraborgin nálgaðist Reykjavík.


Nálgast feginn föðurtún

fríður meginviður.

Nú er Egils ygglibrún

ekki sigin niður.


Til ónefndrar konu:


Upp í rúmi og hjá þér

er mér ljúft að lúlla.

Hagamúsin á þér er

eins og krúsindúlla.


Páll S bauð bræðrum sínum Hauki og Þórði í ferðalag austur á land. Eitthvað þótti þeim lítið til um búskapinn auk þess að lenda í þoku. Páll S orti.

Þar eru ær í þremur reifum

Þar er loftið fúlt og grátt

Hestarnir á skaflaskeifum

Skömmu fyrir engjaslátt



Skrifað á bíómiða í Egilsbíói – Neskaupsstað 23/2 1983 ,,Með allt á hreinu.“


Ei skipti það Neskaupsstað neinu

hvort náðargjöf æru var týnd,

iðmyndin ,,Allt með á hreinu“

í Egilsbíó var sýnd.


Sigurður H. Guðjónsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Húseigendafélags Reykjavíkur og því í starfstengslum og vináttu við P.S.P. þótt Sigurður Helgi væri mannsaldri yngri að árum, var að Páls hyggju allmjög kvensamur. Á veturnóttum 1982 varpaði P.S.P. fram þessum samsetningi:


Sigurður H – stefndi hnallr,

hann er í bólinu fimr.

Dýrr myndi Hafliði allr,

ef svá skyldi hverr limur.


Um áramótin 1971 til 1972 kvað P.S.P.  vegna heimsfrétta:


Rúdolf Hess er ennþá hress,

þótt ei séu vessar góðir.

En bædnafress í Bangladesh

eru barðir í klessu – hljóðir.


Um Guðmund Pétursson kvað P.S.P.  30.janúar 1972 í tilefni af ævintýraferð þeirra á hestum á heiðum uppi sumarið áður, og að Guðmundur sagðist alltaf vera ,,einnar konu maður“ og ennfremur að hann var lögmaður mestu auðfélaga landsins:


Smalaði hrossum heiðum af

heiðurskrossa ber hann.

Ástarkossinn einni gaf

auðvaldsbossa ver hann.


30. okt. 1971 varpaði P.S.P.  þessu fram af tilefni:


Stjórnmálaforingi stendur sem grein

á stofni síns tíma og hverfur sem hjóm.

Mynd hans þótt verði nú steyptur í stein

staðfestir fortíðin ney... þeirra dóm


Magnús Thorlacius hrl. þótti mjög einarður í afstöðu sinni þegar svo bar undir. Eitt sinn slengdi hann fram í ræðu að Hæstiréttur ætti allur að víkja sæti, eins og hann var þá skipaður.


P.S.P.  kvað:

Magnús Tholl flutti mál fyrir dómi.

Margfaldur stafaði af honum ljómi.

Hreytti þá út úr sér höfðinginn mæti

,,Hæstiréttur skal víkja sæti“.


Í júlí 1977.

Um tvær hliðar á Sigurði Ólasyni hrl.:

I.

Rysjótt þykir ræðan hans,

reynir að karpa, þrefa,

rugla dómgreind dómarans,

draga satt í efa.

II.

List á örlar lagamanna,

leynast huldir sjóðir,

það er snilld í hugsun hans,

hæðarpunktar góðir.


Ræða Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra 12. nóv. 1972:


Ef í sameiningu, Sjálfstæðisflokkinn vér kysum,

gegn sundrungu í heilbrigðismálum einhuga vér risum,

svonefnda hverfismiðstöð þarf ekki að vera þys um,

þar mætti taka á móti minniháttar slysum.


P.S.P.  fór á lögmannaþing til Filippseyja.


Hýstu aldrei hugarvíl,

halt til Filippseyja,

það kostar aðeina brot úr bíl.

Betur að lifa en deyja.


Kona í Húnaþingi undraðist lauslætið í Austur-Asíu, er hún heyrði ferðafrásögn:


Ætli þær séu í ástandi?

Eru þær kannski að drýgja hór?

Telpurnar í Thailandi,

Taiwan og Singapore?


Hannibal Valdimarsson talaði í sjónvarp rétt eftir heimkomu P.S.P.  frá Gambíu og Senegal 27. apríl 1974:


Hugrakkur var Hannibal

hetjan slynga,orðaríkur.

Seggurinn væri í Senegal,

svartra meðal – goðumlíkur.


25. des. 1981 -  Þjóðsöngur Breta.


Guð verndi göfgan kóng

Guð efli okkar kóng,

veitandi vernd,

sigra og heillahnoss,

heiður og dýrðarkross.

Hann lengi leiði oss.

Guð veiti vernd.


II

Dáðríkri drottningu

drótt sýni lotningu.

Guð veiti vernd,

sigra og heillahnoss

heiður og dýrðarkross.

Hún lengi leiði oss.

Guð veiti vernd.


Í ljósriti fann ritari handskrifaða síðu eftir  Pál, þar sem hann vitnar í eitthvert ættartal og yrkir síðan minnisvísu neðst. Fyrsta línan byrjar greinilega á Sesselju dóttur PSP. Vísan er svona:

Sesselja, Páll og Sesselja,

svo Þórður, Jón og María.

Móðir hennar hét Ragnheiður,

hún átti prestlærða forfeður,

þeir hétu Þorsteinn, Eiríkur,

Þorsteinn, Gunnlaugur, Sigurður.


(Sjá forfeður Páls á ættarsíðunni)


Um móðurætt (Guðrúnar Stephensen) Stefáns sonar þeirra:


Nú er komið nafnið manns.

Nú skal rakinn ættstafur.

Stefán, Guðrún, Stefán, Hans,

Stefán, Stefán, Ólafur.


Minnisvísur skráðar eftir ýmsum bleðlum og kompum aðallega handskrifað af Guðrúnu Stephensen


Ort um kollegana:


Lögmenn elska þref og þras.

Það er varla nema von.

Taktu Magnús, taktu GAS,

Taktu Guðlaug Einarsson.


Ort um börnin:


  Um Signýju:


Með lítinn spékopp og lítið hökuskarð,

lokk við rjóða kinn og bros á vörum.

Hún litla Signý fetar föðurgarð,

falleg stúlka, létt og skýr í svörum.


Árið 1960 fékk Páll Arnór Pálsson dvelja í sumarbústað fjölskyldunnar á Þingvöllum þegar hann kom í frí úr sveitavinnunni fyrir norðan.  En hann var strax gripinn til að hjálpa pabba sínum sem var að hlaða hólma í vatninu fyrir framan bústaðinn og hleðslur við vatnsbakkann. Skortur var á mold til uppfyllingar, svo nota varð marhálm í staðinn. Arnór var látinn tína hann úr fjöruborðinu og setja hann á handbörur sem tveir menn báru á milli sín. Honum þótti þessi vinna með afbrigðum leiðinleg og gat hugsað sér margt skemmtilegra til dundurs.


PSP kvað:


Vatnahálmi vinna að

vondum hæfir böðli.

Það er verra en tína tað

í túninu á Röðli.


Páll skrifaði í dagbók sína 1958 um Ívar (sem fæddist 26. febrúar 1958)


Ívar hjá mér æpti svo

að ég tók mér nærri

mánuði þá taldi tvo

brautt munu aðrir stærri.


Ívari þykir vont að vaka

veslingurinn grætur ótt

mamma hans er úti að aka

er þó komið fram á nótt.


,,Det var en lördagsaften“  í þýðingu Páls S. Pálssonar


Á liðnum laugardegi

í löngun beið ég þín.

Á liðnum laugardegi

í löngun beið ég þín.


Þú hést að koma kvöldið það

en komst þó ei til mín.

Þú hést að koma kvöldið það

en komst þó ei til mín.


Ég lá með vota vanga

á voðir féllu tár.

Ég lá með vota vanga

á voðir féllu tár.


Er hurð var opnuð hrökk ég við

en hlaut þá vonbrigð´ sár.

Er hurð var opnuð hrökk ég við

en hlaut þá vonbrigð´ sár.


Hver andar blómsins angan,

þar engin blómarós grær?

Hver andar blómsins angan,

þar engin blómarós grær?


Hver getur fundið ástaryl

þar ást ei búið fær.

Hver getur fundið ástaryl

þar ást ei búið fær.


1949 eftir Pál S. Pálsson

Samið fyrir húsmæðrakennara í Háskóla Íslands við lagið ,,Máninn hátt á himni skín“.


Oftast nunnur erum vér,

annað hjartað kýs.

Harðlæst eru hliðin

hjá Helgu abbadís.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt

   dimma vetrarnátt.

Hingað streymir herraval –

og hliðin upp á gátt.


Kemíuna kunnum vér,

kemían er vor,

því tvítugfalt er traust vor

á Trausta prófessor.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt...


Íslenzkan er erfið grein,

allar ná þær skammt.

Það Steingrím dósent stækkar,

vér stöðugt götum jafnt.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt...


Heilsufræðin hentar oss,

hún er ekki þurr,

því líffærunum lýsir

vor ljúfi Ófeigur.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt...


Grasafræðin geðjast oss,

á góðu er jafnan von,

því allar jurtir nærir

vor eðli Davíðsson.


(viðlag)


Syngjum hátt dönsum dátt...


Anna reiknar, reiknar skakkt

en rösklega er kennt.

Hún iðkar þessa ágætu

amerísku mennt.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt...


Svo er fröken Sigurlaug,

sú kann þrifnað bezt.

Í norðurvegi lýsa henni

lýsigullin flest.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt...


Vér eigum allar veraldraþrá

og von, sem aldrei deyr.

Vér syngjum ástarsöngva

og síðan ekki meir.


(viðlag)

Syngjum hátt dönsum dátt ...