Páll S. Pálsson Minningar

Páll S. Pálsson fæddist 29. janúar 1916 og lést 11. júlí 1983

Eftirfarandi minningargreinar birtust í Morgunblaðinu og í Tímanum

Vinarkveðja frá Birgi Þorvaldssyni

Í dag kveð ég vin minn og félaga, Pál S. Pálsson, eða Palla eins og hann vildi láta kalla sig. Ég ætla með fáum orðum að minnast hans, okkar kynni hófust í Lionsklúbbi Reykjavíkur, síðan urðu kynni okkar meiri og betri, við höfðum svipuð áhugamál, fé- lagsstarfsemi, hestamennsku o.fl. Hann átti marga góða hesta um dagana og hafði gott lag á hestum enda ferðaðist hann mikið um landið á hestum og fór marga svaðilförina norður Arnarvatnsheiði o.fl. Palli var félagsmaður hinn mesti enda ræðumaður mikill, talaði íslensku sérlega vel, hann hafði frá miklu að segja og sagði skemmtilega frá og var hann hrókur alls fagnaðar í vinahópi, hann naut sín best þegar hann var að segja okkur strákunum skemmtilegar sögur og þegar hann hafði nógu marga áheyrendur þá var Palli í essinu sínu. Hann var snyrtimaður svo af bar enda tekið eftir því hve vel hann var ávallt klæddur hvort sem var í samkvæmi eða á hestum. Við Palli töluðum saman næstum því á hverjum degi sl. 15 ár, það leið varla sá dagur að við hringdum ekki hvor í annan.


Við ferðuðumst mikið saman bæði innan lands og utan, sjaldan hef ég séð honum líða betur en norður í sínum heimahögum við Laxá á Ásum, því laxveiðimaður var hann með afbrigðum og notaði aðeins flugu, annað kom ekki til greina hjá Palla, því sportmaður var hann fram í fingurgóma. Hann hafði alveg einstætt minni og var hann geysilega vel að sér í íslenskum fornsögum, þá var hann frábært skáld og liggja margar skemmtilegar vísur eftir hann, einnig kunni hann mikið af ljóðum eftir okkar bestu ljóðskáld og fór sérstaklega vel með þau.


Hann kvæntist eftirlifandi konu sinni Guðrúnu Stefánsdóttur 1945 og eignuðust þau 8 myndarleg börn, sem öll eru á lífi og uppkomin. Son átti Palli áður en hann giftist Guðrúnu, Hlöðver en hann býr í Bandaríkjunum og vissi ég að mikill kærleikur var á milli þeirra. Hann er nú meðal virtustu stjörnufræðinga í Bandaríkjunum. Ekki get ég lokið við kveðju þessa án þess að minnast þess hve vel var tekið á móti mér þegar ég kom í Steinnes til Palla og Guð- rúnar, þar var ávallt opið hús og veitt vel. Að lokum votta ég Guðrúnu, börnum og barnabörnum og öllum ættingjum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

  „Deyr fé deyja frændur

  deyr sjálfr it sama;

  en orðstír deyr aldregi

  hveim sér góðan getur."

           Birgir Þorvaldsson

Kveðja frá Birni Helgasyni hæstaréttarritara

Tveir af virtustu lögmönnum þessa lands eru látnir með stuttu millibili.


Jón E. Ragnarsson hæstaréttarlögmaður lést um aldur fram, og nú er Páll S. dáinn. Að sumu leyti kom það ekki á óvart. Það var fimmtudaginn 26. maí að Páll átti að flytja mál hjá Hæstarétti að hann kom ekki. í stað hans kom Páll Arnór sonur hans og tilkynnti að faðir hans hefði fengið hjartaáfall og væri á sjúkrahúsi. Þetta var líkt Páli. Hann var aldrei svo sjúkur að hann vissi ekki að hann átti að mæta í Hæstarétti. Því miður reyndist sjúkdómurinn erfiðari en við var búist í fyrstu, því Páll komst ekki til meðvitundar eftir þetta.


Páll S. var ættaður úr Húnaþingi, aðrir munu vafalaust fjalla um ættir hans, en mér er kunnugt um að Páll S. var alltaf trúr sínu heimahéraði. Það var sorglegt að þetta vor tókst honum ekki að opna Laxá í Ásum eins og venjulega. Ég hafði kynnst Páli S. lítillega en vinátta okkar hófst að marki þegar ég hóf störf hjá Hæstarétti. Þar bar aldrei skugga á öll þessi ár. Alltaf birti yfir þegar Páll S. kom, sem var oft. Páll stofnaði lögmannsskrifstofu að Bergstaðastræti 14, sem fljótlega vann sér gott álit. Ekki síst leituðu til Páls S. bændur víða af landinu, sem þótti hlutur sinn fyrir borð borinn. Þar kippti Páli í kynið. Ég held að á engan sé hall- að þó ég segi að í slíkum málum stóð enginn Páli S. framar. Þessu fylgdu oft ferðalög. Eitt slíkt stóð fyrir dyrum í vor, en féll niður vegna veikinda Páls. í svona ferð- um var Páll í essinu sínu.


Synir Páls S., þeir Stefán og Páll Arnór komu til starfa á skrifstofu föður síns, er þeir höfðu lokið lagaprófi. Skrifstofan heldur því áfram störfum. Þ6 höfðingi sé fallinn er þess að vænta að merki hans verði haldið á lofti.


Ég vil fyrir mig og allt starfslið Hæstaréttar þakka Páli S. samstarfið á liðnum árum. Fallinn er einn af virtustu og bestu lögmönnum þessa lands. Mér finnst að það verði langt þangað til að Hæstiréttur verði sá sami. Ég votta frú Guðrúnu og afkomendum samúð mína.


    Björn Helgason

Kveðja frá Gunnlaugi Þórðarsyni, hæstaréttarlögmanni

Nú er Páll Sigþór Pálsson, hæstaréttarlögmaður hefur kvatt þetta tilverustig, vakna margar minningar og hugsanir um óvenjulegan mann.


Leiðir okkar Páls S. lágu fyrst saman í lagadeild H.Í. Við tókum saman fyrrihlutapróf í lögfræði vorið 1943 og seinni hlutann vorið 1945 og vorum þeir einu í okkar hóni, sem fylgdust þannig að í gegnum lagadeildina öðruvísi en aðrir með því að eyða 2 árum í seinni hlutann, en venja var þá að ljúka honum á 3—4 árum. Páll S. hafði verið við kennslustörf jafnframt námi sínu og vildi hespa því af á sem stystum tíma — eins og var eitt af einkennum hans um flest verk. Enda þótt hann væri kennari af guðs náð og elskaður sem slíkur, þá vildi hann geta snúið sér að lögmannsstörfum, svo fljótt sem verða mátti. Ástæður mínar voru allt aðrar, eða þær, að blinda vegna alvarlegs augnsjúkdóms tafði fyrir háskólanámi mínu í tvö ár og til þess að ná í samstúdenta mína varð ég að hraða námi mínu meir en ella.


Þannig voru við e.t.v. snöggsoðnari í ýmsum greinum lögfræðinnar en við hefðu kosið síðar. Hins vegar mun þetta naumast hafa komið að sök hjá Páli S.


Í lögfræðinni reynir á sitt hvað annað en það, sem bækur og doðrantar geta miðlað, sem segja má að sé fremur einkenni þess starfs og töfrar svo sem réttsýni, mann- úð, gæska og mannvit. Þess vegna er starfið meira heillandi en ella. Þessa eiginleika spilaði Páll S. hiklaust og létt á, þeir voru honum eðlislægir, en hann var auk þessa góður leikari og með afbrigðum snöggur að átta sig á aðalatriðum hvers máls, stálminnugur, vel gefinn og lék sér með mæki hins mælta máls af orðsins kynngi.


Við áttum lengi samleið sem vinir og líka sem andstæðingar. Hann var ráðhollur og úrræðagóður og það var gott að eiga hann að.


Mér eru minnisstæð orð hans frá því við tókum fyrst tal saman. Þá skaut ættfræðinni upp í kolli Páls, er hann sagði með nokkrum valdsmannssvip, sem brá stundum fyrir: „Já, þú ert Húnvetningur eins og ég,“ og svo bætti hann við: „Veistu, að ef menn eru ættaðir úr fleiri en einu byggðarlagi og Húnaþing er eitt þeirra, þá skaltu taka eftir því, að undantekningarlaust nefna þeir húnvetnsku arfleifðina fyrst, enda segist Jónas á Hriflu aldrei hafa hitt heimskan Húnvetning.“


Hins vegar voru bláþræðir í þessu hjá Páli. Auðvitað var ég Reykvíkingur, enda þótt föðurætt mín væri úr Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu og ættir Páls S. úr Skagafirði og Eyjafirði, þótt hann hefði fæðst og alist upp á Sauðanesi í Torfalækjarhreppi í Húnaþingi. En þá vitnaði hann til orða Grettis og sagði: „Fjórðungu bregður til fósturs.“


Við tveir vinir Páls S. vorum um daginn að spjalla saman um þá þætti, sem persónuleiki hans er tvinnaður úr. Við vorum sammála um, að vinnusemin og dugnaðurinn væru eyfirsk — enda gefur nú vart að líta myndarlegri bóndabæi en í Eyjafirði. Glaðværðin og lífsþorstinn úr Skagafirði, honum tókst jafnan að kveikja í umhverfi sínu með meðfæddri gleði sinni og hressileika. Hann var alltaf tilbúinn að henda frá sér penna og málsskjölum til þess að fara fyrirvaralaust á hestbak, í veiðitúr eða jafnvel aðeins til að heilsa upp á Bakkus, en einmitt þetta eru einkenni góðra Skagfirðinga. Hann skorti raunar aðeins að vera söngvinn til þess að geta algjörlega talist slíkur.


Hið húnvetnska umhverfi, sem hann fæddist og ólst upp í, efldi með honum þá ríku eðliskennd Húnvetninga að skopast að náunganum, bregða sér í gervi hans, því Páll S. lék sér að því að herma eftir fólki, þannig að sumir gátu velst um af hlátri af tilburðum hans og talsmáta, en öðrum gat fallið það miður í geð. Þá gat hann ort tækifærisvísur því hann var góður hagyrðingur og gat verið níðskældin. Hann unni ljóðlist og þeir Einar Ben. og þó sérstaklega Grímur Thomsen voru hans menn. Menntaþrá hans mun vafalaust líka húnvetnsk. Við vissum ekki fyllilega, hvaðan við ættum að telja þá ríku áráttu hans koma að vilja ofbjóða sjálfum sér og ætla sér ekki af, hvort heldur var til gleði, vinnu, drykkju eða ferðalaga, sem minnt gat á ofurkapp fornkappanna í Heimskringlu.


Páll S. var mikill kavaler á dansgólfi. Einhvern tíma hafði ég orð á því við Pál hve gaman ég hefði af því að sjá hann þeysast um dansgólfið eins og skopparakringlu og sveifla konum í kring- um sig eða beita gömlum töfrabrögðum með því að lyfta öðrum fæti aftur fyrir sig með stíl. Hann hafði gaman af þessari samlíkingu enda alltaf til sprell í honum. Hann sjarmeraði konur og átti aðdáun þeirra.


Ævi Páls og félagsstörf verða ekki rakin hér, það gera aðrir. Hitt má ekki gleymast, að Páll S. var mikill gæfumaður og átti afbragðs lífsförunaut, Guðrúnu Stephensen, sem lét sér annt um hann til hinstu stundar, en hún var samt algjör andstæða hans og fyllti í eyður persónuleika hans með stillingu, hógværð og hyggjuviti.


Þau eiga átta börn og er mikill ættbogi af þeim kominn og hafa þau látið að sér kveða á ýmsum sviðum, sem ekki verður rakið hér. Tveir elstu synirnir feta i fótspor hans sem lögmenn og leiklist hefur fengið útrás í tveimur dætra hans. Þá átti Páll fyrir hjúskap son með Kristínu Gísladóttur, sem búsettur er í Bandaríkjunum og fæst við vísindastörf vestra.


Páll S. var og gæfumaður að því leyti, að hann elskaði starf sitt og gekkst upp í því og setti sig í spor umbjóðenda sinna og skjólstæðinga — stundum eins og lög- mönnum hættir til — um of og gekk það nærri honum, er mál fór öðru vísi en hann taldi horfa. Hann sagðist telja málflutninginn sjálfan eitt það magnaðasta, sem lífið hefði upp á að bjóða og enda þótt hann að sjálfsögðu tapaði stundum máli, þá væri það honum þó alltaf huggun ef hann fyndi, að hann hefði „náð vopnum sínum við flutning máls“, eins og honum var tamt að orða það. Bardaginn var fyrir öllu. Hann gat verið harður og óvæginn andstæðingur — jafnvel beggja handa járn og eirði engu til þess að halda velli. Maður vissi aldrei hvar maður hafði hann.


Þegar eru til þjóðsögur um Pál S. allt frá því að hann var í vegavinnu á Holtavörðuheiði með þeim Ásbergi Sigurðssyni, Magnúsi Kjartanssyni, Pétri Thorsteinsson o.fl. til furðusagna af málflutningi hans og ferðalögum. Sögur þessar verða ekki raktar hér, en sýna margbreytileika þeirrar heillandi persónu, sem Páll S. hlaut að vera hverjum manni, er skynjaði manngerðina á réttan hátt.


Þegar svo bar við minnti Páll S. í virðuleika sínum á rómverskan senator á dögum Cesars og hina stundina á hrossatemjara úr Skagafirði. Fátt lýsir betur persónuleika hans en það, að honum fannst tamning hesta vera ein mest töfrandi ögrun sem nokkur maður gæti glímt við, það að beygja vilja dýrsins að sínum.


Við Páll S. höfum hist nær daglega í heitu pottunum í Laugardal síðustu tvo áratugi og þar sem annars staðar, er mikill söknuður að honum. Ég veit að afgreiðslufólkið þar mun sakna hins glettna glampa í brosi hans. Nú verður daufara við stóra matborðið á tyllidögum hjá fjölskyldu Páls, þegar ættarhöfðinginn, sem leysti úr öllum vandræðum líðandi stundar og var bakhjarl, mun ekki framar „dósera" þar yfir borðum, en hann vildi, að hlustað væri á sig og hataði orðið „ha“. Hann vildi að menn þyrftu ekki að spyrja tvisvar.


Páll S. lifir áfram í sögu þjóðarinnar og í vitund ættmenna og vina. Hann vildi lifa vandræðalaust, eins og hann orðaði það, og tókst honum það.

Gunnlaugur Þórðarson

Kveðja frá Gylfa Thorlacius, hæstaréttarlögmanni

Kynni okkar Páls S. Pálssonar, hæstaréttarlögmanns hófust vorið 1966, þegar ég sem laganemi var svo heppinn að fá sumarstarf á lögmannsskrifstofu hans. Leiddi það til þess að ég réðst til hans sem fulltrúi að loknu laganámi. Þau sex ár sem ég síðan starfaði undir hans leiðsögn reyndust ungum lögfræðingi ómetanlegt vegarnesti.


Í lögmannsstörfum, þar sem oft reynir á þolrifin við lausn erfiðustu mála fer ekki hjá því, að menn kynnist flestum hliðum hvers annars.


Páll S. Pálsson var sérstaður maður og hafði sem lögmaður mikinn persónuleika til að bera. Hann var kvikur í hreyfingum og rösklegur, flutti mál sitt hátt og skýrt af miklum skörungsskap og var gæddur þeim eiginleika að tala af fágætum sannfæringarkrafti. Íslenskt mál lék honum á tungu enda var honum í blóð borinn áhugi á landi og sögu, sem glöggt kom í ljós í lögmannsstörfum hans einkum síðustu árin við flutning oft flókinna landamerkjamála.


Páll S. Pálsson var harðfylginn lögmaður, og rak mál þau eru honum voru falin af festu og einbeitni.


Við mig sem nýútskrifaðan og óreyndan lögfræðing kom hann þegar fram sem jafningja og tókst með okkur traust vinátta, sem stóð þar til yfir lauk.


Þar með er ekki sagt að starfið hafi ævinlega verið dans á rósum. Þurftu starfsmenn oft að ráða fram úr málum á eigin spýtur, enda taldi lögmaðurinn tímasóun að segja hlutina oftar en einu sinni.


Gagnvart okkur hjónunum var Páll ávallt traustur vinur, sem studdi við bak okkar í lögmannsstörfum og áttum við margar góðar stundir saman. Páll var mikill hestamaður og var ekki lítil ánægja þegar það kom fyrir að hann leit inn hjá okkur í Fossvogsdalnum um helgar og tjóðraði hross sín við bílskúrsdyrnar. Það er mikill sjónvarsviptir að Páli S. Pálssyni og verður íslensk lögmannsstétt stórum litminni við fráfall hans. Konu hans, Guðrúnu Stephensen, og fjölskyldu, sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Gylfi Thorlacius

Kveðja frá Davíð Scheving Thorsteinssyni

Páll S. Pálsson var bæði afburða skarpur maður og skemmtilegur, enda bæði fróður og hafði ríka frásagnargáfu, og þar við bættist að hann var líka maður iðnaðarins. Hann varð skrifstofustjóri Félags íslenskra iðnrekenda áður en hann varð þrítugur, síðar varð hann framkvæmdastjóri þess og eftir að hann hætti störfum sem fastur starfsmaður félagsins var hann lögmaður iðnrekenda allt til dauðadags. Eitt af þeim málum iðnaðarins, sem hann barðist fyrir og leiddi til lykta, var stofnun Iðnaðarbanka íslands hf.


Því miður eru ekki margir lengur meðal okkar, sem þekkja þá sögu sem býr að baki stofnunar Iðnaðarbankans til hlítar, en ég held að enginn sem ekki tók beinan þátt í þeirri baráttu geti gert sér grein fyrir öllum þeim ljónum sem sigrast þurfti á, til að leiða mætti þetta gamla hugsjónamál iðnaðarins farsællega í höfn.


En það var einmitt í máli sem þessu, sem hæfileikar Páls komu best í ljós. Elja, lipurð, vinsældir, sjarmi, rökfesta, mælska, kænska, útsjónarsemi, kunnátta og eldmóður voru þau vopn sem hann beitti í þessari snerru og sigurinn varð okkar. Iðnrekendur sýndu þakklæti sitt með því að velja hann fyrstan formann bankaráðsins og því féll það í hans hlut að móta starfshætti bankaráðs og bankastjórnar Iðnaðarbankans fyrstu árin og það tókst með þeim hætti sem alþjóð veit.


Og lengi býr að fyrstu gerð, því í dag, 30 árum síðar, reynum við, sem nú berum ábyrgð á bankanum, að reka hann með þær hug- sjónir að leiðarljósi, sem lágu að baki stofnunar hans.


Ég veit að ég mæli ekki aðeins fyrir hönd bankaráðs og alls starfsfólks Iðnaðarbankans, heldur og iðnaðarins alls, þegar ég votta Guðrúnu og börnunum samúð og ítreka enn þakklæti okkar fyrir frábært ævistarf Páls S. Pálssonar í þágu iðnaðarins og þar með þjóðarinnar allrar. Megi hugsjónir hans vísa okkur veginn til betri lífskjara á íslandi í framtíðinni.

D.Sch. T.

Kveðja frá Guðmundi Péturssyni, hæstaréttarlögmanni

Nú þegar leiðir skilja langar mig til þess að senda Páli, vini mínum, nokkur kveðjuorð. Um lögmannsstörf hans, ætt og önnur störf munu aðrir rita. Við lukum prófi í lögfræði um svipað leyti, höfðum áður verið saman i háskóla, en ekki kynnst verulega, og þótt við yrðum starfsbræður og hittumst sem starfandi lögmenn í dómsölum og á lögmannamótum, varð ekki um neinn sérstakan kunningsskap að ræða. Í lögmannsstafi áttum við í deilum eins og gengur og gerist og skildum oftast sáttir að kalla.


Það var ekki fyrr en á sjötta áratugnum sem sameiginlegur áhugi okkar á hestum og hestamennsku jók kynni okkar og leiddi til þess að við fórum að ferðast á hestum um öræfi landsins, fyrst með fleira fólki og síðar tveir einir. í næstum tvo áratugi ferðuðumst við í sumarfríum um heiðarnar milli landsfjórðunga og nutum fjallakyrrðarinnar og fámennisins. Í þeim ferðum komst ég að raun um hvern mann Páll hafði að geyma. Mér var áður vel kunnugt um að Páll var mikill afkastamaður í lögmannsstarfinu. Hann tók daginn snemma og vann langan dag hvíldarlaust. Það var áber- andi eiginleiki, að hann gat ekki verið iðjulaus. Hann var ófeiminn við háa sem lága, átti létt með að koma fyrir sig orði og var frjór í hugsun og hafði ávallt umræðu- efni á takteinum. 1 hestamennsk- unni kom dugnaður hans vel í ljós. Ferðahugurinn var mikill. Ferðin sóttist því yfirleitt vel þegar hann var með, en eins gott var að vera vel ríðandi, því hann átti yfirleitt trausta og góða hesta. Í hinum mörgu fjallaferðum okkar kynntist ég Páli náið, og varð þá var við eiginleika sem mér fannst sýna betur hans innri mann en ég hafði gert mér ljóst í viðkynningu við hann gegnum lögfræðistörfin. Eitt var það, að hann talaði aldrei illa um nokkurn mann. Ég hreinlega furðaði mig á því að hann skyldi aldrei senda manni tóninn, þótt hann vissi að sá hinn sami hefði ekki vandað honum kveðjurnar, svo sem lögmenn fá oft að reyna. Hann var hreinskilinn og sannorður og reyndi aldrei að bæta málstað sinn með því að kríta liðugt. Sem sagt vandaður til orðs og æðis.


Ég kveð hér samferðamann í orðins fyllstu merkingu, því við áttum samleið i starfi og leik i þriðjung aldar og sendi nánustu ástvinum hans samúðar- og saknaðarkveðjur.

Guðmundur Pétursson

Kveðja frá Húnvetningafélagi Reykjavíkur

Við fráfall Páls S. Pálssonar leita á hugann minningar um harðduglegan, vel gefinn mann og tryggan vin.


Af eigin dugnaði braust hann til mennta, gegndi ótal störfum um dagana og var við lát sitt einn a þekktustu málflutningsmönnum landsins.


Páll var mikill félagshyggjumaður. Hann gekk ungur til starfa í Húnvetningafélaginu í Reykjavík, var formaður þess um skeið og ætíð áhugasamur um framgang þess og stefnumörkun, enda bundinn sterkum böndum heimabyggð sinni. Þar reistu þau hjónin sumarhús í landi Sauðaness og nefndu Laxabrekku.


Páll var ákaflega ættrækinn og vinafastur. Ótaldar eru þær ferðir sem hann fór norður ár hvert og alls staðar var hann aufúsugestur. Húnvetningafélagið í Reykjavík þakkar Páli samfylgdina og sendir Guðrúnu og ástvinum öllum djúpar samúðarkveðjur.

H.K.

Kveðja frá Ingibjörgu Elíasdóttur

Döpur í huga kveð ég Pál S. Pálsson. Ég kynntist honum fyrst sem kennara og vann síðan hjá honum um nokkurra ára skeið. Hæfileikar hans nutu sín vel hvort sem hann kenndi eða stjórnaði. Hann var ákveðinn og ósérhlífinn, gat verið hrjúfur, en mildur og gott til hans að leita þegar á þurfti að halda. Hann kunni manna best að hlusta og gefa góð ráð.


Mörg sumur átti ég og fjölskylda mín því láni að fagna að dvelja á æskustöðvum hans, en hann og maðurinn minn voru góðir veiðifélagar og erum við þakklát fyrir þær ánægjustundir og gestrisni sem þar ríkti. Eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur.


Ingibjörg Elíasdóttir.

Kveðja frá Jóhönnu Björnsdóttur

Nokkur kveðjuorð. Röddin hans er hljóðnuð. Það skeði svo skyndilega að það er tæpast að við sem vinnum fyrir hann höfum áttað okkur á þessu.


Ég réðst sem skrifstofustúlka til Páls S. Pálssonar hrl. í nóvember sl. Mér var ljóst frá fyrstu kynnum hve sterkur persónuleiki Páll var. Hlýleiki og ljúfmennska voru áberandi eiginleikar í fari hans, ég fann og fljótt hversu ríkrar virðingar og trausts hann naut.


Ég þakka af heilum hug að hafa fengið að kynnast þessum sterka persónuleika sem ég svo margt lærði af. Ljúfmennska hans og góðvild og styrkleiki hans í allri framkomu verður mér ógleymanleg.


Með þökk og virðingu mun ég ávallt minnast þessa mikilhæfa húsbónda míns. Guð blessi hann.

Jóhanna Björnsdóttir

Kveðja frá Leigjendasambandi Reykjavíkur

Þegar unnið var að stofnun Leigjendasamtakanna fyrir röskum fimm árum, kom í minn hlut að hafa samband við formann Húseigendafélags Reykjavíkur, Pál S. Pálsson hrl. Allt frá þeim tíma höfum við Páll átt nokkurt samstarf. Hann átti m.a. sæti í nefnd þeirri er samdi frumvarp til laga um húsaleigusamninga, en full samstaða var í nefndinni um frumvarpið. Víðar kom Páll við sögu húsnæðismála.


Þótt Páll S. Pálsson væri góður talsmaður þeirra er hann vann fyrir, var hann skilningsgóður á okkar mál og fyrir kom að ég leitaði ráða hjá honum þegar leysa þurfti aðsteðjandi vanda. Hann var hollráður og sanngjarn og hafði fullan skilning á kjörum þeirra sem minna máttu sín, enda ekki fæddur með gullskeið í munni eins og stundum er sagt. Páll S. Pálsson var þægilegur í viðmóti og fjölfróður og varpaði menningarblæ yfir hvert um- hverfi. Fundir með honum voru því aldrei leiðinlegir. íslensk menning og ekki síst saga lands og þjóðar voru honum hjartans mál og léku honum á tungu. Við leiðarlok vill stjórn Leigjendasamtakanna þakka Páli S. Pálssyni drengileg samskipti á undanförnum árum og vottar að- standendum hans samúð.

Jón frá Pálmholti, form. Leigjendasamtakanna

Kveðja frá Pétri J. Thorsteinssyni sendiherra

Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður er látinn, langt fyrir aldur fram, rúmlega 67 ára. Leiðir okkar Páls lágu fyrst saman nokkru fyrir heimsstyrjöld, í vegavinnu á Holtavörðuheiði. Páll hafði þá lokið námi í Reykholtsskóla og var við nám í Kennaraskóla íslands. Við unnum saman á Holtavörðuheiði í fjögur sumur. Þá voru þar 50—70 menn við vegagerð á sumrin, menn úr öllum landsfjórðungum, á öllum aldri, sjómenn, bændur, bændasynir, námsmenn og aðrir. Ungir menn voru í meirihluta. Páll var strax áberandi í þessum hópi, hress og röskur og skemmtilegur í viðræðum. Og hann var einn af heiðarskáldunum.


Páll lauk námi frá Kennaraskólanum 1937, og nokkru síðar hóf hann að lesa undir stúdentspróf. Hann vann fyrir sér jafnframt náminu, með kennslu á vetrum og ýmiss konar vinnu á sumrin. Hann las undir stúdentsprófið með Guðrúnu Stephensen, er síðar varð eiginkona hans og lífsförunautur. Þau tóku prófið utanskóla árið 1940. Páll hóf síðan nám í norrænum fræðum, en hætti því nokkru síðar og lagði stund á lögfræði. Lagaprófi lauk hann 1945. Leiðir okkar lágu saman enn um stund eftir Holta- vörðuheiðarárin, bæði við sumarstörf og í tvo vetur við stundakennslu í Kvennaskólanum í Reykjavík.


Ævistarf Páls varð mikið. Að loknu laganámi vann hann fyrir íslenska iðnrekendur margvísleg og mikilvæg störf, sem urðu mjög til eflingar iðnaði á íslandi. Um það leyti sem hann lét af þeim störfum varð hann hæstaréttarlögmaður, og stofnaði eigin málflutningsskrifstofu. Hann varð síðan einn þekktasti málflutningsmaður landsins, og málflutningur í fjölmörgum mjög mikilvægum hæstaréttarmálum féll í hans hlut. En jafnframt hlóðst á hann ótrúlegur fjöldi trúnaðarstarfa á sviði félagsmála, í menningarsamtökum, líknarsamtökum, hagsmunasamtökum, og á sviði hins opinbera. Hann var alls staðar eftirsóttur til forustu og samvinnu. En þessi langa og merka saga er rakin annars staðar hér í blaðinu.


Þau Páll og Guðrún eignuðust átta mannvænleg börn sem öll eru á lífi. Tveir sonanna fetuðu í fótspor föður síns og hafa gerst málflutningsmenn. Að leiðarlokum rifjast upp margar ánægjustundir í návist Páls. Hann var mikill persónuleiki, sjálfstæður í skoðunum, hafði skemmtilega kímni og skarpa hugsun. Hann var fróður maður og lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hann var ráðhollur og drengur góður. — Ég og fjölskylda mín höfum misst góðan vin. Við sendum Guðrúnu, börnunum og öllum skyldmennum þeirra og vandamönnum einlægar samúðarkveðjur.

P. J. Th.

Kveðja frá Sveini Ásgeirssyni

Er kveðja skal Pál S. Pálsson hinztu kveðju, er mér innanbrjósts eins og ég hafi misst náinn og umhyggjusaman ættingja, þótt við værum ekki skyldir. Hann er einn af þeim mönnum, sem ég er þakklátastur fyrir að hafa kynnzt á lífsleiðinni.


Kynni okkar hófust sumarið 1936 við allsérstæðar aðstæður, er við vorum í vegavinnu á Holtavörðuheiði. Þar bjuggu yfir 50 manns í tjaldborg langt frá mannabyggðum miðað við þeirra tíma samgöngur og mynduðu sitt eigið samfélag. Þarna voru bændur og bændasynir úr nærsveitum, en þó fleiri lengra að komnir og margir námsmenn, sem þáðu það þakksamlega að mega strita þarna sumarlangt við mold og möl og grjót til að geta átt fyrir brýnustu lífsnauðsynjum við skólanám að vetri. Helztu verkfærin voru haki, skófla, gaffall, sleggja og járnkall, en það efni í veginn, sem ekki varð borið í hann eða kastað, var flutt á hestvögnum. Það var unnið sleitulaust og þótti öllum sjálfsagt. Þetta var ekkert sældarlíf, en hafði vissulega sínar björtu hliðar. Menn kunnu að meta frítímana sína. Og loftið var heilnæmt, sem ekki var þó hægt að segja um mat- inn, enda þótt menn yrðu að borga hann sjálfir í þá daga. Mér finnst, að vegavinnu á þessum tímum hafi ekki verið gerð verðug skil í bókmenntum vorum og þjóðlífs- lýsingum. Á Holtavörðuheiði bundust margir vináttuböndum, sem haldizt hafa æ síðan — urðu ævilöng. Mér hefur oft dottið í hug, að með vegavinnumönnum á Holtavörðuheiði hafi skapazt svipuð samkennd og með þeim, sem hafa verið saman í herdeild í stríði. En víst er um það, að kynni margra á heiðinni urðu mönnum örvun til dáða á lífsbrautinni.


Aldursmunur á okkur Páli var gífurlegur á þessum tíma. Hann var tvítugur, en ég varð ellefu ára um sumarið. Ég teymdi hesta og bar starfsheitið kúskur. Allt skipulag var við það miðað að menn væru alltaf að. Því mátti kúskurinn ekki slóra fremur en aðrir. Á Holtavörðuheiði hefur mér fundizt tíminn bæði vera lengst að líða og fljótast. Páli bar á engan hátt að sýna mér meiri umhyggjusemi en aðrir, en hann gerði það samt. Þarna var lagður grunnur að ævilangri vináttu, sem hefur verið mér dýrmæt og gleði- rík, og frá upphafi hennar eru heiðbjartar minningar, sem hugurinn leitar til á skilnaðarstund.


Það treysti að sjálfsögðu vináttuböndin, að hinir sömu menn voru sumar eftir sumar á sömu slóðum í vegavinnunni. Við lukum við veginn yfir heiðina sumarið 1939, og höfðu þá margir verið fjögur og fimm sumur saman á heiðinni. Það mun hafa ráðið nokkru og jafnvel miklu um námsferil Páls, hverjum hann kynntist í vegavinnunni. Hann lauk kennaraprófi 1937, en réðst síðan í að taka stúdentspróf utanskóla vorið 1940. Ég heimsótti hann, er hann var að búa sig undir það próf, og þá bjó hann hjá vegavinnufélaga okkar, þeim öndvegismanni Ásberg Sigurðssyni.


Páll hóf síðan nám í lögfræði og stundaði kennslustörf jafnframt. Hann lauk fyrrihluta lögfræðinnar á tveimur árum, en reglan var sú, að hann tæki þrjú ár. Þetta átti eftir að hafa áhrif á minn námsferil. Ég innritaðist í viðskiptafræði haustið 1944, en ætlaði síðan, er stríðinu væri lokið, að stunda nám erlendis. Þessi vetur yrði því einskonar biðtími. Páll hvatti mig þá til dáða á afdrifaríkan hátt. Hann taldi mig á að fara í lögfræðideildina og taka fyrri hlutann á einu ári. Hann hefði gert það á tveimur, en treysti mér til að ljúka því á einu, enda hefði hann getað það sjálfur, hefði hann einsett sér það. Ég kannaði málið, treysti Páli og lagði til atlögu við verkefnið, þótt ég þyrði ekki öðru en að halda því leyndu í lengstu lög. Um vorið í maí 1945 lukum við Páll síðan prófum hvor í sínum hluta, og með fyrstu einkunn fögnuðu báðir björtu sumri. Þetta próf mitt réð síðan úrslitum um það, að ég fékk fjögurra ára styrk til náms erlendis, en hann var þá veittur örfáum á ári hverju.


Áhugi, hvatning og velvilji Páls náði þarna meiri árangri en hann hafði þorað að vona, og vinátta okkar vegavinnufélaganna varð traustari og innilegri en nokkru sinni fyrr. Þessar heiðbjörtu minningar eru mér efst í huga, þegar ég kveð Pál hinztu kveðju, en þær eru þó aðeins sem leiftur af langri sögu vináttu og tryggðar á lífsins vegi.


Hið dýrðlega vor, í apríl 1945, gekk Páll að eiga hina yndislegu konu sína, Guðrúnu Stephensen, sem ég þá kynntist og fannst kjörin til að vera alla tíð við hlið vinar míns. Henni votta ég djúpa samúð, börnum þeirra og ástvinum öllum.

Sveinn Ásgeirsson

Kveðja frá Þorsteini Júlíussyni lögmanni

Í dag verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík útför Páls S. Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, er lést hinn 11. júlí sl.


Páll var fæddur 29. janúar 1916 að Sauðanesi í Torfulækjarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru þau Páll bóndi þar Jónsson, Jónssonar bónda á sama stað, og kona hans, Sesselja Þórðardóttir, bónda frá Steindyrum í Svarfaðardal, Jónssonar. Páll var því Norðlendingur að uppruna, kominn af rótgrónu bændafólki í báðar ættir.


Páll ólst upp hjá foreldrum sínum í Sauðanesi. Ekki átti það þó fyrir honum að liggja að feta í fótspor feðranna og gerast bóndi, því hugur hans stóð til mennta. Settist hann í Héraðsskólann í Reykholti og nam þar á árunum 1933 til 1935. Þá fór Páll til Reykjavíkur, þar sem hann hóf nám í Kennaraskóla íslands og lauk kennaraprófi 1937. Þegar að loknu kennaraprófi hóf Páll kennslustörf og stundaði barna- kennslu til ársins 1942, auk þess sem hann var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík á árunum 1942 til 1952.


Þrátt fyrir það að Páll þyrfti að vinna fyrir sér með kennslu var hann ákveðinn í að afla sér frekari menntunar og lauk stúdentsprófi, utanskóla, við Menntaskólann í Reykjavík 1940. Þá settist hann í Háskóla íslands, þar sem hann lagði í fyrstu stund á nám í íslenskum fræðum, en sneri sér fljótlega að lögfræðinni og lauk prófi úr lagadeild árið 1945. Réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi fékk Páll 1946. Hæstaréttarlögmaður varð Páll árið 1956.


1945 réðst Páll til Félags íslenskra iðnrekenda, fyrst sem skrifstofustjóri en varð síðan framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 1947 til 1956, en þá setti hann á stofn eigin málflutningsskrifstofu, sem hann rak eftir það til dauðadags.


Meðan Páll starfaði hjá Félagi íslenskra iðnrekenda gegndi hann einnig ýmsum öðrum trúnaðar- störfum fyrir þá, var m.a. formaður bankaráðs Iðnaðarbanka Íslands frá stofnun hans 1952 til 1957, svo og formaður Iðnaðarmálastofnunar Íslands frá stofnun 1953 til 1957.


Þá sat Páll einnig í ýmsum nefndum fyrir hönd iðnrekenda. Árið 1952 fór Páll til Bretlands, þar sem hann kynnti sér vinnulöggjöf og starfsemi vinnumálaráðuneytisins í Bretlandi á vegum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar í Genf.


Eftir að Páll gerði málflutning að aðalstarfi sínu aflaði hann sér skjótt trausts fjölda viðskiptavina og varð brátt einn af þekktustu lögmönnum landsins. Hann tók ætíð mikinn þátt í félagsstörfum á vegum stéttar sinnar og sat m.a. í stjórn Lögmannafélags Íslands 1970 til 1971 og var formaður félagsins árið 1973 til 1976. Þá var Páll einnig formaður Íslandsdeildar The World Peace Through Law Center frá nóvember 1974.


Af öðrum störfum Páls sem lögmanns og sem dæmi um það traust, er hann naut sem slíkur, má nefna að hann var settur saksóknari ríkisins í nokkrum málum fyrir Hæstarétti 1961 og skipaður dómari í félagsdómi eftir tilnefningu VSf 1978.


Þá var Páll einnig skipaður formaður Kjaranefndar ríkisins 1963 og gegndi því starfi til ársins 1975.


Ýmsum félagsmálum sinnti Páll, sem á einn eða annan hátt tengdust áhugamálum hans og starfi hans sem lögmanns. Hann var framkvæmdastjóri Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur 1946 til 1948 og formaður Húseigendafélags Reykjavíkur 1958 til 1967 og aftur frá 1978 þar til hann lést. Formaður Hús- og landeigendasambands Íslands frá stofnun þess 1962, svo og formaður Hús- og landeigendasambands Norðurlanda, árið 1969 til 1973. Á árinu 1978 var Páll skipaður í nefnd til þess að semja frumvarp til laga um réttindi og skyldur leigusala og leigutaka húsnæðis.


Ýmsum öðrum félagsstörfum gegndi Páll. Var hann m.a. formaður Ungm.fél. Rvíkur 1942, Stúdentaráðs 1943—44, Stúdentafélags Rvíkur, 1947, Barnavinafélagsins Sumargjafar 1957 til 1962 og meðstjórnandi í Rauða krossdeild Reykjavíkur frá árinu 1975.


Páll sinnti nokkuð ritstörfum. Samdi m.a. kennslubók i félagsfræði, íslenska þjóðfélagið, sem út kom í Reykjavík 1955 og 1957, var meðritstjóri að Iðnaðarritinu á árunum 1946 til 1949, auk þess sem greinar birtust eftir hann bæði í innlendum og erlendum tímaritum. Páll var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. jan. 1976.


Árið 1945 kvæntist Páll eftirlifandi konu sinni, Guðrúnu Stefánsdóttur Stephensen, en faðir hennar var trésmiður, er lengi bjó í Winnipeg í Kanada og móðir hennar, síðari konar Stefáns, Friðný Gunnlaugsdóttir Stephensen.


Þeim Páli og Guðrúnu varð átta barna auðið og eru þau öll á lífi, Stefán, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík, Sesselja, búsett i Bandaríkjunum, á þar og rekur veitingastað í New York, Páll Arnór, hæstaréttarlögmaður í Reykjvík, Signý, leikhússtjóri á Akureyri, Þórunn, kennari í Reykjavík, Sigþrúður, vinnur að myndlist í Reykjavík, Anna Heiða, stundar verslunarstörf í Reykjavík og Ívar, sem stundar nám í viðskiptafræðum við Háskóla ís- lands. Áður en Páll kvæntist eignaðist hann einn son, Gísla Hlöðver, sem búsettur er í Bandaríkjunum, doktor í stjörnufræði og prófessor við Michigan University.


Af því sem hér að framan er rakið má sjá, að Páll var alla tíð mikill dugnaðar- og atorkumaður og áhugasamur um margvísleg félagsmál.


Kynni mín af Páli hófust ekki fyrr en hann var orðinn þekktur lögmaður, er ég réðst sem fulltrúi á málflutningsskrifstofu hans árið 1964, þá nýkominn frá prófborði. Minnist ég þess, að það var með nokkrum kvíða, að ég hóf störf þar því mér hafði verið sagt, að Páll væri harður í horn að taka og óvæginn við fulltrúa sína. Kvíði minn reyndist þó með öllu ástæðulaus. Páll reyndist mér hinn besti húsbóndi, þægilegur og hjálpsamur kennari, sem studdi mig dyggilega fyrstu sporin í starfi mínu sem lögmaður. Er tíminn leið kynntist ég betur hver mannkostamaður Páll var og hefur það verið mér mikils virði að hafa kynnst honum og notið vináttu hans.


Páll var margþættur persónuleiki, glaðbeittur og upplitsdjarfur og gekk að hverju verki af einurð og dugnaði. Var hann mikill afkastamaður, enda eftirsóttur sem traustur og virtur lögmaður. En þótt ég minnist Páls sem hús- bónda og kollega, minnist ég hans miklu fremur sem góðs vinar um margra ára skeið. Ég minnist laxveiðimannsins og ótal ánægjulegra samverustunda við laxá á Ásum, ég minnist hestamannsins, þeysandi á Blesa sínum upp um heiðar á björtu vorkvöldi, ég minnist hagyrðingsins, sem gat sett fram skemmtilega og oft beinskeytta vísu, við nánast hvaða tækifæri sem var, ég minnist ferðafélagans úr ótal ferðum innanlands og utan, en við hjónin áttum þess kost að ferðast með Páli og Guðrúnu þó nokkrum sinnum til útlanda og eigum við margar ánægjulegar minningar úr þeim ferðum. Ég minnist gestgjafans, en Páll var höfðingi heim að sækja og naut þar dyggs stuðnings eiginkonu sinnar. Var alltaf jafn notalegt að koma í Steinnes, eða eins og það heitir nú, Skildinganes 28, þar sem Páll bjó með fjöl- skyldu sinni og er heimilið með miklum myndarbrag.


Auk þess að vera ágætur hagyrðingur var Páll víðlesinn og fróður og hafði á hraðbergi ljóð góðskálda okkar. Oft var það á gleðistund að Páll fór með vísu eða sagði frá einhverju áhugaverðu efni, sem hann var að lesa þá stundina. En Páli lét ákaflega vel að segja frá, hann var mælskur vel og átti auðvelt með að setja mál sitt fram á einfaldan og skýran hátt. Naut hann þess bæði í starfi sínu sem málflytjandi og ekki síður við ýmis tækifæri sem hnyttinn og skemmtilegur ræðumaður.


Þegar ég nú minnist fóstra míns, eins og ég kallaði Pál gjarna, minnist ég þess að oftar en ekki var hann með bros á vör, kátur og hress, og síðasta sinn er ég sá hann, kom hann kvikur í spori út úr húsi Hæstaréttar þar sem hann hafði á löngum lögmanns- ferli marga hildi háð. Var þetta fáum dögum áður en Páll veiktist þannig að til dauða dró. Var hann að sjá fullfrískur og hressilegur, þar sem hann sagði mér frá nýlok- inni ferð til Bandaríkjanna, sem hann hafði farið með eiginkonu sinni í hópi allmargra lögmanna. Var fastmælum bundið að við hjónin heimsæktum þau Pál og Guðrúnu fljótlega til þess að heyra ferðasöguna. Grunaði mig síst, að þetta yrði síðasta sinn, sem ég sæi Pál.


Að leiðarlokum kveð ég fóstra minn með söknuð í huga. Við Esther sendum Guðrúnu og börnunum hugheilar samúðarkveðjur í fullvissu þess, að minningin um góðan dreng lifir.

Þorsteinn Júlíusson

Kveðja frá Lögmannafélagi Íslands

Skammt er nú stórra högga í milli hjá íslenskri lögmannastétt. Nýlega er látinn Jón E. Ragnarsson, hæstaréttarlögmaður, sem mjög lét hagsmunamál lögmanna til sín taka, og mánudaginn 11. júlí sl. andaðist Páll S. Pálsson, hæstaréttarlögmaður, eftir tiltölulega stutta en stranga sjúkdómslegu.


Páll heitinn hafði um langt árabil ótvírætt verið í forystusveit íslenskra lögmanna, jafnt í hinu daglega starfi sem afskiptum af félagsmálum stéttarinnar. Páll átti sæti í stjórn Lögmannafélags íslands 1970—1971 og formaður félagsins var hann 1973—1976. Eru þá ótalin fjölmörg tilfallandi verkefni, sem Páll vann fyrir fé- lagið, og of langt mál yrði að telja upp hér.


Framlag Páls til félagsmála lögmanna var mikið og fórnfúst, enda maðurinn með afbrigðum stéttvís og ávallt vakandi fyrir hagsmunamálum og virðingu lögmannastéttarinnar. Mér hefur verið tjáð að Páll hafi, er hann hóf lögmannstörf fyrir u.þ.b. þremur áratugum, strax orðið virkur þátttakandi í starfsemi Lögmannafé- lagsins og látið þá þegar verulega til sín taka á fundum hjá félaginu. Þessi áhugi á starfsemi félagsins hélst óskertur fram til æviloka og ekki munu þeir margir félagsfundirnir, sem Páll lét fram hjá sér fara. Á félagsfundum, og raunar annars staðar á opinberum vettvangi, naut Páll sín ákaflega vel og verður mörgum minnisstæður, enda hraðmælskur, hnyttinn og orðheppinn í besta lagi. Sannarlega maður hins talandi orðs og hins skrifaða reyndar líka ef því var að skipta. Þessir eiginleikar komu Páli og vel í umfangsmiklum og erilssömum lögmannsstörfum hans. Páll hélt fram skoðunum skjólstæðinga sinna af mikilli einurð og festu. Eftir að verk var hafið voru það hagsmunir skjólstæðinganna, sem sátu í fyrirrúmi, og hvorki mun Páll hafa sparað tíma né fyrirhöfn til að gera hlut um- bjóðenda sinna sem bestan. Enda var Páll eftirsóttur lögmaður og störf hans farsæl.


Eins og áður segir var Páli mjög annt um allan framgang lög- mannastéttarinnar og vildi veg hennar sem mestan. Var hann ódeigur við að koma með ábendingar og ráð um hvaðeina, sem til heilla gæti horft í því sambandi. Fyrir öll hans góðu störf í þágu Lögmannafélags íslands er nú þakkað að leiðarlokum. Nafn Páls S. Pálssonar mun lengi lifa innan íslenskrar lögmannastéttar.


Ekki nægði það Páli að taka einungis þátt í samstarfi íslenskra lögmanna. Hann var virkur þátttakandi í alþjóðlegum félagsskap lögfræðinga, sem ber heitið „World Peace Through Law Center" og var formaður Íslandsdeildar samtakanna. Persónuleg viðkynning undirritaðs af Páli var hvorki löng né náin en með þeim hætti að mér líkaði strax vel við Pál og bar fyrir honum virðingu. Mér er það minnisstætt hversu vel Páll tók mér, er ég var að hefja lögmannsstörf og þurfti að eiga við hann samskipti. Slíkt var mér mikils virði. Veit ég að margir yngri lögmenn hafa sömu sögu að segja. í mínum augum var Páll ákaflega heilsteyptur maður, hreinn og beinn og fór ekki í manngreinarálit. Minnisstæður persónuleiki og merkur samferðarmaður er nú kvaddur. Eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum færi ég hugheilar samúðarkveðjur.


Hafþór Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Lögmannafélags íslands.


Kveðja frá Lionsklúbbi Reykjavíkur

Við fráfall Páls S. Pálssonar hæstaréttarlögmanns hefur enn einu sinni verið höggvið stórt skarð í raðir félaga í Lionsklúbbi Reykjavíkur. Með skömmu milli- bili höfum við kvatt mæta félaga, þá Kristin Bergþórsson og Gunnar B. Sigurðsson. Verður því með sanni sagt: Nú er skarð fyrir skildi.


Páll gekk í Lionshreyfinguna árið 1953 og var því einn af elztu félögum hennar og alla tíð hin styrka stoð. Það er mikið happ fyrir félagsskap, sem hefur líknar- og mannúðarmál efst á stefnuskrá sinni, að Páll skyldi gerast liðsmaður í Lionshreyfingunni, enda gegndi hann þar mörgum trúnaðarstörfum og var oft til kvaddur þegar mikið lá við.


Auk fræðigreinar sinnar var Páll víðlesinn og margfróður. Við félagarnir fengum oft að njóta þess, þegar Páll sagði frá hugðarefnum sínum, en hann var frábær sögumaður. Minninguna um góðan dreng munum við varðveita í hjarta okkar með þakklæti fyrir liðnar samverustundir. Við ferðalok vottum við eigin- konu, frú Guðrúnu G. Stephensen, og öðrum ástvinum innilega samúð.


Sigurður B. Oddsson


Kveðja frá Sigurði Ólafssyni, hæstaréttarlögmanni

Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður andaðist á Landskotsspítala 11. þessa mánaðar og var jarðsettur í gær frá Dómkirkjunni. Er þar fallinn í valinn einn þekktasti lögfræðingur landsins í lögmannastétt, og atkvæðamaður á.fleiri sviðum, sem hann hefir látið til sín taka á liðnum árum.


Við hið sviplega fráfall Páls S. Pálssonar er þungur harmur kveðinn eftirlifandi konu hans og öðrum aðstandendum. Og stéttarbræðrum hans, og vinum fjær og nær er söknuður í huga. Við minnumst góðs félaga og starfsbróður, og margra ánægjulegra kynna á liðinni tíð. Er það nú sammæli allra, sem til þekkja, að með honum er horfinn af sviðinu góður maður og gegn, raunverulega langt um aldur fram.


Páll Sigþór Pálsson var fæddur 29. janúar 1916 að Sauðanesi í A-Húnavatnssýslu, sonur hjón- anna Páls Jónssonar búfræðings og Sesselju Þórðardóttur, er þar bjuggu. Standa að honum traustar bændaættir úr Norðurlandi. Faðirinn var af Flatatungu- og Skeggjastaðaættum, sem svo eru nefndar. Er margt sögulega þekkt fólk í þeim ættum, þó ekki verði rakið hér að sinni. Nefna mætti merkiskonuna Helgu á Æsustöðum, langömmu Páls, sem var „kvenskörungur og höfðingskona," „siðavönd og stjórnsöm", (Magnús, Syðra- Hóli), enda gengu um hana margar sagnir. Hún var mikil hjálparhella og vinur Hjálmars í Bólu, hún lét alltaf sækja hann um jólin eftir að hann; missti konuna. „Óvíða var skáldið jafnskörulega útleyst með gjöfum" sem þar. Það var á leiðinni í jólaheimboð á Æsustóðum sem Hjálmar sá hina „ægilegu sýn," og er sú saga alþekkt. Bróðir hennar, einnig langafi P.S.P., var stórbóndinn Gísli í Flatatungu, sem Hjálmar yrkir til hið fræga kvæði í erfisgildinu mikla í Flatatungu 1862, eftir son Gísla tvítugan, sem drukknaði hér við Selsvararfjöru, og um gengu einkennilega sagnir. Í móðurætt var Páll Eyfirðingur, móðir hans Sesselja Þórðardóttir var frá Steindyrum í Svarfaðardal, annáluð dugnaðar- og gáfukona. Þau hjón áttu 12 börn og komust öll upp, öndvegisfólk að gáfum og dugnaði. Mann sinn missti Sesselja 1932. Það má telja ótrúlegt afrek, að halda í horfi svo stóru heimili og koma til manndóms og þroska stórum barnahóp, þrátt fyrir kreppu og margvíslega örðugleika í sveitabúskap á þeim árum.


Það blés því ekki byrlega fyrir Páli að brjótast til mennta við þessar aðstæður, en það mun hann fljótlega hafa ásett sér. Honum tókst þó að komast í Reykholtsskóla og síðan einn vetur í Kennaraskólann, því næst gerðist hann kennari í nokkur ár, Viðey, Keflavík, Seltjarnarnesi, en lét í millitíðinni skrá sig til stúdentsprófs, utanskóla, og þótti allnokkuð í ráðist miðað við undirbúning. Stóðst hann prófið með sæmilegustu einkunn, og komu þarna fram ágætar námsgátur hans. Lét hann nú ekki deigan síga og innritaðist í Norrænu- deild og síðar Lagadeild, og útskrifaðist þaðan 29. maí 1945, með góðri I. einkunn.


Þegar þessum áfanga var náð tóku fljótlega að hlaðast á hann margvíslegustu störf og stöður, sumpart opinberar eða hálfopinberar. Má af því marka hvert orð fór af dugnaði hans og hæfi- leikum. Spillti þar ekki um hressileg og traustvekjandi framkoma, og mikill hæfileiki að tala fyrir sínu máli. Af störfum þessum má nefna (þó hvergi tæmandi): framkvæmdastj. Fél. ísl. iðnrekenda, formennska í bankaráði Iðnaðarbankans-, form. Iðnaðarmálastofnunar, dómari í Félagsdómi, form. Kjaranefndar ríkisins, form. Sumargjafar, stj. Rauðakrossins, framkv.stj. Fasteignaeigenda Reykjavíkur, form. Lögmannafélags íslands, auk fjölda nefnda- og trúnaðarstarfa, sem ekki eru tök á að rekja hér frekar. Þá samdi hann kennslubók í þjóðfélagsfræði, fjölda greina og útvarpserinda, þ.á.m. fræðilegt erindi um stjórnarskrárgildi laga, o.s.frv. Ekki er annað vitað en að hann þætti hafa gert þessu öllu hin bestu skil; hafa þá afköst hans hlotið að vera nánast með ólíkindum.


Eftir að Páll tók hæstaréttargráðuna, 23. júní 1956, rak hann málflutningsskrifstofu hér í bæ. Varð hún fljótlega með þeim stærstu í bænum, og eftir málafjölda fyrir Hæstarétti líklega sú stærsta. Tveir sona hans eru einnig hæstaréttarlögmenn, Stefán og Páll Arnór, og munu væntanlega taka við rekstri föður síns. Sem hæstaréttarlögmaður var Páll tvímælalaust í besta flokki. Hann var skarpgáfaður máður, prýðilega máli farinn, og neytti þess út í æsar. Hann var fljótur að átta sig, fljótur að aka seglum eftir því, hvernig vindur blés; svarafátt varð honum aldrei. Hann var mjög sannfærandi í málflutningi, (hefði notið sín vel fyrir kviðdómi, eins og þeir eru í útlandinu). Hins vegar var málflutningur hans aldrei á lágu plani, þvert á móti drengilegur á alla grein. Um þetta get ég vottað, því atvikin höguðu því svo að við áttumst oft við í málum. Þótt á ýmsu gengi breytti það engu milli okkar, persónulega. Það væri hægt að skrifa langt mál um Pál S. Pálsson, þótt það verði ekki gert hér að sinni. Hans verður lengi minnst fyrir mannkosti og gáfur, og einnig fyrir óvenjulega fjölhæfni og hæfileika. Honum var sitthvað til lista lagt, þótt ekki sé skráð í bækur. Hann vargleðimaður mikill í sinn hóp, og allra manna skemmtilegastur, ef hann vildi svo við hafa. Hann kunni býsn af kvæðum, vísum og sögum, enda átti hann frásagnargáfu í ríkum mæli. Hann var tækifærisræðumaður í besta lagi, vel heima í fornsögunum, og skrifaði stundum í blöð í þá veru. Hann gat leikið og hermt eftir af mikilli list. Og loks var hann prýðilega hagmæltur, átti létt með að kasta fram vísu, eins og hann þyrfti ekkert fyrir að hafa. Undantekningarlaust var sá kveðskapur bráðfyndinn, eftir tilefnum. Aðstandendum, konu og börnum, votta ég dýpstu samúð.


Sigurður Ólafsson